DJÄSS skipað Karli Olgeirssyni, píanóleikara, Kristni Snæ Agnarssyni, trommuleikara og Jóni Rafnssyni, bassaleikara, hefur starfað frá árinu 2010. Tríóið, sem fyrstu 10 starfsárin bar nafnið Hot Eskimos, hefur skapað sér nafn og sérstöðu með jazzútsetningum á íslenskum rokk-, punk- og dægurlögum. Þannig var lagavalið á þeirra fyrsta geisladiski „Songs From the Top of the World“ (2011) og fékk hann frábæra dóma gagnrýnenda. Þessi diskur er nú einnig fáanlegur á vinyl. Á disknum „We ride Polar Bears“ (2015) kvað við annan tón, en þar mátti heyra, auk þekktra íslenskra laga, nokkur frumsamin lög og erlend.

Þriðja plata þeirra félaga, sem nefnist einfaldlega DJÄSS, kom út árið 2022, bæði sem geisladiskur og vinylplata og inniheldur átta frumsamin lög.

  • Jón Rafnsson (1958)

    hefur starfað við tónlist frá unglingsárum. Tónlistarmenntunin var í fyrstu sjálfsnám á rafbassa með tilheyrandi spilamennsku, en síðar stundaði hann klassískt tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, á fiðlu, píanó og kontrabassa. Árið 1983 hóf hann framhaldsnám í kontrabassaleik hjá Prof. Thorvald Fredin í Stokkhólmi auk þess að stunda nám við Tónlistarkennaraháskólann í Stokkhólmi (SMI – Stockholms musikpedagogiska institut) og lauk þaðan prófi árið 1987. Jón hefur allt frá því hann flutti heim frá Svíþjóð árið 1990 verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið jöfnum höndum hina ýmsu tónlistarstíla; jazz, blús, rokk og klassík, - hann er eftirsóttur bassaleikari og hefur leikið inn á fjölda geisladiska og starfar einnig sem tónlistarkennari.

  • Karl Olgeirsson (1972)

    hóf píanónám 5 ára gamall og hefur haft atvinnu af tónlist frá því hann var í menntaskóla, bæði sem hljóðfæraleikari og tónsmiður. Hann er einn eftirsóttasti tónlistar- , hljómsveitar- og upptökustjóri landsins og hefur m.a. unnið með Björk að hennar verkefnum. Hann var lykilmaður á geisladiski Helenu Eyjólfsdóttur sem kom út árið 2016 sem og á „Happy hour með Ragga Bjarna og Karl Orgeltríó“ sem kom út árið 2017. Karl var tónlistarstjóri og aðalútsetjari fyrir jólaverkefnið Frostrósir í mörg ár og vann þar með öllum helstu söngvurum Íslands, en einnig þekktum erlendum söngvurum eins og Petulu Clark og Sissel Kirkebö. Árið 2018 kom út hans fyrsta sóló jazz-plata, „Mitt bláa hjarta“ og fyrir hana hlaut Karl íslensku tónlistarverðlaunin í tveimur flokkum í jazztónlist; plata ársins og lagahöfundur ársins. Mitt bláa hjarta kom út í þrem mismunandi formum; sem geisladiskur, LP-plata og 14 laga nótna- og textabók. Karl hefur síðustu ár unnið mikið í leikhúsum sem tónlistarstjóri/hljóðfæraleikari, m.a.í sýningu Þjóðleikhússins á „Einræðisherranum“ eftir Charlie Chaplin og nú sem stendur í „Kardemommubænum“ sem sýndur er í Þjóðleikhúsinu.

  • Kristinn Snær Agnarsson (1977)

    fékk sína fyrstu sneriltrommu 4 ára gamall og eftir það var ekki aftur snúið. Hann lék á unglingsárum með ýmsum hljómsveitum á sínum heimaslóðum austur á fjörðum en hefur síðustu 20 ár verið einn eftirsóttasti trommuleikari landsins, hvort sem er til spilamennsku á tónleikum eða hljóðritunar. Kristinn stundaði tónlistarnám við Vasaskólann í Gävle (The Vasa Music Institut) og við Skurup Folkhögskola (The Skurup High School of Music) í Svíþjóð. Hann flutti heim til Íslands aftur árið 2000 og hefur frá því verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi. Hann var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Hjálma, er trommuleikari Baggalúts og lék um tíma með Barða Jóhannssyni/Bang Gang, John Grant Band og Ásgeir Trausta víða um heim.