Á döfinni
Tríóið DJÄSS hefur gefið út sína fjórðu plötu og er hún komin í verslanir og á streymisveitur. Platan ber ber titilinn „Tilbrigði um Gunnar Þórðarson” og inniheldur 11 lög þessa ástsæla tónskálds. Tríóið hefur á fyrri plötum sínum gert óvæntar útgáfur af þekktum íslenskum lögum eftir ýmsa höfunda, svo sem Þeysarana, Gylfa Ægisson, Björk og Emilíönu Torrini. En í tilefni 80 ára afmælis Gunnars Þórðarsonar hefur tríóið útsett hans lög í sínum anda. Þeim félögum til fulltyngis á plötunni er sænsk-íslenski trompetleikarinn Björn Atle Anfinsen sem setur sinn lit á lögin.
Lagavalið er þverskurður af ferli Gunnars og má á plötunni finna lög sem hann samdi fyrir Hljóma, Lónlí Blú Bojs, Vísnaplöturnar, Björgvin Halldórsson, Vilhjálm Vilhjálmsson og kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar Reykjavík, Reykjavík en þar er meðal annars verkið Tilbrigði um fegurð sem fær andlitslyftingu í meðförum DJÄSS.
Aðspurður segir Karl píanóleikari: „Það var ákaflega spennandi að takast á við lög Gunnars því þau eru gríðarlega vel samin en eiga það til að vera mjög flókin. Eins er frumútgáfa laganna oft svo sterk í huga manns að það er snúið að finna nýjan búning. En það er líka einkenni góðra laga að blómstra í ólíkum útsetningum“
Tónlistarunnendur geta stutt við útgáfuna því nú stendur yfir söfnun á Karolina Fund fyrir vínylframleiðslu á plötunni, en hún mun einnig koma út á streymisveitum og á geisladisk.
Þann 5.mars næstkomandi mun DJÄSS fagna 15 ára samstarfi með tónleikum í Salnum í Kópavogi. Á tónleikunum mun tríóið leika það helsta sem verið hefur á þeirra dagskrá þessi ár og lög af nýju plötunni fá að sjálfsögðu sitt pláss á tónleikunum.
Miðasala hefst fljótlega.
DJÄSS lék á Jazz Baltica hátíðinni í Þýskalandi í júní 2022 - hægt er að sjá tónleikana hér.